Skólasetning

Ritstjórn Fréttir

Skólinn var settur í íþróttahúsinu mánudaginn 24. ágúst. Sólasetningin var með nokkuð óvenjulegu sniði eins og svo margt annað þessa dagana. Takmarka þurfti aðgang að íþróttahúsinu og því voru færri foreldrar og starfsmenn viðstaddir en venja er.

Júlía Guðjónsdóttir, skólastjóri, bauð nemendur og starfsfólk velkomið til starfa. Hún greindi frá því að framkvæmdir við skólann hefðu gengið vel en væri þó ekki að fullu lokið og því þyrfti að gæta þess að fara ekki inn á afmörkuð vinnusvæði.

Í máli Júlíu kom fram að 312 nemendur eru skráðir í skólann og þar af hefja 23 nám í fyrsta bekk. Starfsmenn skólans eru 62. Í skólanum er unnið eftir Uppbyggingarstefnunni sem miðar að því að efla ábyrgðarkennd og sjálfsstjórn nemenda, þjálfa þá í að ræða um tilfinningar sínar og átta sig á þörfum sínum. Grænfáninn verður dreginn að húni í 8. sinn í september. Þá er skólinn heilsueflandi grunnskóli og tekur þátt í ýmsum viðburðum þar að lútandi. Velferðarkennsla verður áfram í Búbblunni. Í skólanum er lögð áhersla á teymiskennslu. Unnið er að þróunarverkefni um bættari skólabrag og betri bekkjaranda í samstarfi við Grunnskóla Borgarfjarðar. Fleira mætti tína til sem gert er og stuðlar að því að bæta skólann og starfið sem þar fer fram.

Að lokum óskaði Júlía öllum velfarnaðar á nýju skólaári og nemendu héldu upp í skóla í fylgd umsjónarkennara sinna.