Grunnskólar munu starfa með hefðbundnum hætti frá og með 4. maí nk. en áfram verða í gildi sóttvarnarráðstafanir sem snúa m.a. að hreinlæti og sótthreinsun og aðgengi fullorðinna að byggingum. Hvorki fjölda- né nálægðartakmörk munu gilda um nemendur í grunnskólum eftir 4. maí, en þær gilda um fullorðna í skólastarfi. Mikilvægt er að heilbrigðir nemendur sæki skóla en þeir eiga ekki að koma ef þeir sýna einkenni sem svipar til einkenna COVID-19, s.s. hita, hósta, bein- og vöðvaverki eða óeðlilega þreytu.
Hjá okkur er mælst til þess áfram að foreldrar og ættingjar komi ekki inn í skólahúsnæðið þegar þeir koma með eða sækja börn sín. Starfsdagur verður föstudaginn 8. maí. Dagurinn fer í skipulag maímánaðar og námsmat. Vorskóli verður 19. og 20. maí. Arna Einarsdóttir og Sæbjörg Kristmannsdóttir taka á móti nemendum en þær verða kennarar 1. bekkjar á komandi skólaári. Að þessu sinni er foreldrum ekki heimilt að vera með börnum sínum í skólanum en leikskólakennarar fylgja þeim. Vorferðir og útivistardagar verða með hefðbundnum hætti eftir því sem kostur er. Stefnt er að því að skilafundir og foreldrafundir fari fram rafrænt. Ef það reynist ómögulegt þarf að gæta að tveggja metra reglunni og 50 manna hámarksfjölda. Mötuneytið mun starfa með eðlilegum hætti að nýju. Ákvörðun um skólaslit verður tekin þegar ljóst verður hvernig samkomubanni verður háttað í júní.