Grunnskólinn í Borgarnesi var settur þann 22. ágúst í Borgarneskirkju. Júlía Guðjónsdóttir skólastjóri gerði í ávarpi sínu grein fyrir framkvæmdum sem nú standa yfir við skólabygginguna. Fram kom að veturinn yrði að ýmsu leyti erfiður þar sem kennslurými verður umtalsvert minna í vetur en verið hefur. Júlía minnti á þau gömlu sannindi að þröngt mega sáttir sitja og lagði áherslu á að allir sem að skólastarfinum koma, starfsfólk, nemendur og forráðamenn hafi gleði og jákvæðni að leiðarljósi þegar gengið er til daglegra starfa.
Í dag eru 298 nemendur skráðir í skólann en voru 278 á sama tíma í fyrra. 61 starfsmaður verður við skólann í vetur í 51 stöðugildi. Kolbrún Kjartansdóttir og Rán Höskuldsdóttir kennarar létu af störfum síðastliðið vor ásamt Bríeti Lilju Gunnarsdóttur stuðningsfulltrúa. Nýir starfsmenn við skólann eru Bjarni Bachmann umsjónarkennari í 6. bekk, Margrét Eggertsdóttir umsjónarkennari í 1. bekk, Elísabet Ýr Bjarnadóttir þroskaþjálfi og Árnína Lena Rúnarsdóttir stuðningsfulltrúi.
Skólinn mun áfram starfa eftir áherslum og hugmyndafræði uppbyggingarstefnunnar. Stefnan miðar að því að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfsstjórn nemenda og þjálfa þá í að ræða um tilfinningar sínar og átta sig á þörfum sínum. Skólinn er jafnframt Grænfánaskóli og er stefnt að því að flagga Grænfánanum í 8. skipti í vor. Þá er Grunnskólinn í Borgarnesi heilsueflandi grunnskóli og tekur þátt í ýmsum viðburðum þar að lútandi. Síðastliðið haust fór af stað tilraunaverkefni undir stjórn Elínar Matthildar Kristinsdóttur. Verkefnið miðaði að því að auka vellíðan og velferð nemenda og starfsfólks m.a. með því að beita aðferðum núvitundar og hugleiðslu. Árangur varð góður og hefur verið ákveðið að halda áfram með verkefnið og er Elín Matthildur nú titluð velferðarkennari skólans. Betri og bættari bekkjarbragur verður þróunarverkefni á skólaárinu og sér Ingvar Sigurgeirsson um skipulag þess.