Skólinn settur í kirkjunni

Ritstjórn Fréttir

IMG_1801_kropÞað var þröngt setinn bekkurinn í kirkjunni í morgun þegar Grunnskólinn í Borgarnesi var settur í 109. sinn. Nemendur eru rétt tæplega 300 og starfsmenn 64 í 54 stöðugildum. Vel var mætt á skólasetninguna og komu margir nemendur í fylgd foreldra og forráðamanna. Kirkjan rúmar ekki slíkan fjölda og því var skólinn settur þrisvar ef svo má segja; þ.e. fyrir hvert stig fyrir sig. Í máli Júlíu Guðjónsdóttur, skólastjóra, kom fram að áfram verður unnið í anda Uppbyggingarstefnunnar sem og að markmiðum Grænfánans. Einnig verður sérstök áhersla lögð á nýsköpun í öllu skólastarfi. Júlía rifjaði upp að nemendur hefðu verið beðnir um að hafa samkennd í huga í sumar og minnti þá á gildi þess að virða skoðanir og viðhorf annarra jafnvel þótt þau samrýmdust ekki eigin skoðunum. Að lokinni setningu fóru nemendur ásamt umsjónarkennurum í stofur sínar og fengu afhentar stundaskrár o.fl. Hefðbundið skólastarf hefst svo samkvæmt stundaskrá á morgun, þriðjudaginn 23. ágúst.