Stelpur filma!

Ritstjórn Fréttir

Á fjórða tug stelpna úr grunnskólunum í Borgarnesi og Borgarfirði taka nú þátt í námskeiðinu Stelpur filma sem haldið er í Óðali.
Stelpur filma! er valdeflandi námskeið sem hefur það að markmiði að hvetja ungar stúlkur og kynsegin ungmenni í 8. og 9. bekk til kvikmyndagerðar. Á námskeiðinu fá þátttakendur tækifæri til að rækta innri sköpunargáfu, spegla sig í kvenkyns fyrirmyndum og læra undirstöðuatriðin í kvikmyndagerð undir leiðsögn virtra handritshöfunda og kvikmyndagerðakvenna. Megináhersla er lögð á sjálfseflingu, umburðarlyndi og að skapa öruggt rými fyrir þátttakendur þar sem allar skoðanir og hugmyndir eiga rétt á sér.
Margir samverkandi þættir gera það að verkum að stelpur eru ólíklegri til að prófa sig áfram í kvikmyndagerð og er námskeiðið mikilvægur þáttur í því að jafna út kynjahlutfallið í iðnaðinum. Námskeiðið var fyrst haldið í Norræna húsinu árið 2015, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi, en í ár verður það í fyrsta sinn haldið í öllum landshlutum.
Námskeiðið stendur yfir frá mánudegi til föstudags.  Verkefnastjóri RIFF (Reykjavik International Film Festival) heldur utan um námskeiðið, kennsluefni og tækjabúnað og sjá fagaðilar úr kvikmyndaiðnaðinum um alla kennslu.  Þátttakendur vinna í litlum hópum og framleiðir hver hópur eina stuttmynd frá grunni. Myndirnar mega vera allt að fimm mínútna langar og verða  sýndar í skólum og félagsmiðstöðvum. Einnig verður hægt að nálgast þær á heimasíðu RIFF en frumsýning verður á RIFF hátíðinni í september árið 2022.