Stóra upplestrarhátíðin á Vesturlandi

Ritstjórn Fréttir

Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk lauk formlega á Vesturlandi þann 18. mars með upplestrarhátíð í Laugargerðisskóla. Þar komu saman, auk heimamanna, fulltrúar Grunnskólans í Borgarnesi, Grunnskóla Borgarfjarðar, Auðarskóla og Heiðarskóla en hver skóli valdi tvo til þrjá fulltrúa til þátttöku. Dómnefnd skipuðu Jón Hjartarson, fulltrúi Radda og Branddís Margrét Hauksdóttir. Í ár var keppnin  haldin í 25. sinn og fram kom í máli Jóns að nú myndu Raddir hætta aðkomu að keppninni en vonandi myndu skólar landsins halda þessu góða starfi áfram.
Að þessu sinni voru lesnir kaflar úr bókinni Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk. Auk þess fluttu þátttakendur ljóð að eigin vali. Fyrstu þrjú sætin hrepptu þau Aldís Tara Ísaksdóttir Heiðarskóla, Þorsteinn Logi Þórðarson Grunnskólanum í Borgarnesi og Steinunn Bjarnveig Eiríksdóttir Blöndal Grunnskóla Borgarfjarðar. Að vanda reyndist ekki auðvelt að velja sigurvegarana þar sem allir keppendur stóðu sig með miklum ágætum.
Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk hefur, undanfarinn aldarfjórðung, hafist ár hvert á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og lokið í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi, eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu. Hún skiptist í tvo hluta, ræktunarhluta og keppnishluta.

Ræktunarhlutinn er sá hluti upplestrarkeppninnar sem mestu máli skiptir. Hann miðast við tímabilið frá degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og fram í lok febrúar. Á þessu tímabili er, í skólastarfinu, lögð sérstök rækt við vandaðan upplestur og framburð.

Hátíðarhlutinn er það sem kalla mætti hina eiginlegu „keppni“. Hann er í tvennu lagi. Annars vegar er upplestrarhátíð í hverjum skóla þar sem tveir til þrír nem­endur eru valdir til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Hins vegar er lokahátíð í héraði þar sem koma saman fulltrúar skólanna í héraðinu, einn til þrír úr hverjum skóla, og lesa ljóð og laust mál sem þeir hafa undirbúið.

Hafa ber í huga að „keppnin“ er í raun aðeins formsatriði, nokkurs konar staðfesting á þeim árangri sem náðst hefur í skólastarfinu, og því miklu meir í ætt við uppskeruhátíð. Ekki skiptir máli hver sigrar, heldur það að tekist hafi að virkja nemendur til að vanda upplestur sinn um veturinn.