Stóra upplestrarkeppnin fyrir 7. bekk hófst veturinn 1996 – 1997 með þátttöku barna í Hafnarfirði og á Álftanesi. Nú er hún haldin í flestum grunnskólum landsins.
Keppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu.
Þau Valborg Elva Bragadóttir, Hinrik Úlfarsson og Jóhannes Þór Hjörleifsson voru nýverið valin fulltrúar skólans á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi. Varamaður er Haukur Mikael Arinbjarnarson. Í keppninni í Borgarnesi var lesið úr bókinni Leyndardómur ljónsins eftir Brynhildi Þórarinsdóttur og flutt ljóð eftir Örn Arnarson.
Vesturlandskeppnin verður haldin í Búðardal þann 28. mars næstkomandi.
Upplestrarkeppnin er ekki „keppni“ í neinum venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni. Höfuðáherslan er lögð á bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af.
Keppnin skiptist í tvo hluta, ræktunarhluta og keppnishluta.
Ræktunarhlutinn er sá hluti upplestrarkeppninnar sem mestu máli skiptir. Hann miðast við tímabilið frá degi íslenskrar tungu fram í lok febrúar. Á þessu tímabili er lögð sérstök rækt við vandaðan upplestur og framburð í hverjum bekk. Þær vikur í skólunum, sem helgaðar eru vönduðum upplestri, eru alfarið í höndum kennara.
Hátíðarhlutinn er það sem kalla mætti hina eiginlegu „keppni“. Hann er í tvennu lagi. Annars vegar er upplestrarhátíð í hverjum skóla í lok febrúar þar sem tveir til þrír nemendur eru valdir til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Hins vegar er lokahátíð í héraði sem er haldin í mars. Þar koma saman fulltrúar skólanna í héraðinu, einn, tveir eða þrír úr hverjum skóla, og lesa ljóð og laust mál sem þeir hafa undirbúið vandlega.
Hafa ber í huga að „keppnin“ er í raun aðeins formsatriði, nokkurs konar staðfesting á þeim árangri sem náðst hefur í skólastarfinu, og því miklu meir í ætt við uppskeruhátíð. Ekki skiptir máli hver sigrar, heldur það að tekist hafi að virkja nemendur til að vanda upplestur sinn um veturinn.