Stóra upplestrarkeppnin – undankeppni

Ritstjórn Fréttir

Fimmtudaginn 17. mars var boðið til upplestrarhátíðar í 7. bekk Grunnskólans í Borgarnesi. Nemendur lásu þá ljóð og óbundið mál fyrir foreldra og aðra gesti. Tilgangurinn var meðal annars að velja fulltrúa skólans til þátttöku í Stóru upplestrarkeppninni á Mið-Vesturlandi. Fulltrúar skólans í þeirri keppni verða þau Vilhjálmur Ingi Ríkharðsson, Rebekka Guðnadóttir og Díana Dóra Baldursdóttir. Varamaður verður Aron Ingi Björnsson.

Stóra upplestrarkeppnin fyrir 7. bekk hófst veturinn 1996 – 1997 með þátttöku barna í Hafnarfirði og á Álftanesi. Þátttakan jókst ár frá ári og nú taka nær allir grunnskólar landsins þátt í keppninni. Upplestrarkeppnin er ekki keppni í hefðbundnum skilningi heldur þróunarverkefni. Höfuðáherslan er lögð á bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af. Keppnin er haldin að frumkvæði áhugafólks um íslenskt mál í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara.

Keppnin hefst á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, ár hvert og lýkur í mars. Lokakeppnin á Mið-Vesturlandi verður í Hjálmakletti fimmtudaginn 23. mars næstkomandi og hefst kl. 16.00. Þangað eru allir velkomnir til þess að hlýða á upplestur fulltrúa 7. bekkja úr Grunnskólanum í Borgarnesi, Grunnskóla Borgarfjarðar, Heiðarskóla, Laugagerðisskóla og Auðarskóla í Búðardal. Þriggja manna dómnefnd skipuð tveimur fulltrúum heimamanna og einum fulltrúa Radda, samtaka um vandaðan lestur og framsögn, mun velja bestu upplesarana í ár.