Stóra upplestrarkeppnin

Ritstjórn Fréttir

Upplestrarhátíð var haldin í 7. bekk þann 12. mars sl. Þar voru valdir fulltrúar skólans sem taka munu þátt í lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi. Ernir Daði Sigurðsson, Guðjón Andri Gunnarson og Ásdís Lind Vigfúsdóttir verða fulltrúar skólans og varamaður er Magnús Máni Róbertsson. Fyrirhugað var að halda lokahátíðina á Varmalandi þann 26. mars en vegna samkomubanns verður henni frestað um óákveðinn tíma.

Keppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi.

Keppnin skiptist í tvo hluta, ræktunarhluta og keppnishluta.

Ræktunarhlutinn er sá hluti upplestrarkeppninnar sem mestu máli skiptir. Hann miðast við tímabilið frá degi íslenskrar tungu fram í lok febrúar. Á þessu tímabili er lögð sérstök rækt við vandaðan upplestur og framburð í hverjum bekk.

Hátíðarhlutinn er það sem kalla mætti hina eiginlegu „keppni“. Hann er í tvennu lagi. Annars vegar er upplestrarhátíð í hverjum skóla í lok febrúar þar sem tveir til þrír nem­endur eru valdir til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Hins vegar er lokahátíð í héraði, sem haldin er í góðum samkomusal í byggðarlaginu í mars. Þar koma saman fulltrúar skólanna í héraðinu, einn, tveir eða þrír úr hverjum skóla, og lesa ljóð og laust mál sem þeir hafa undirbúið vandlega.

„Keppnin“ er í raun aðeins formsatriði, nokkurs konar staðfesting á þeim árangri sem náðst hefur í skólastarfinu, og því miklu meir í ætt við uppskeruhátíð. Ekki skiptir máli hver sigrar, heldur það að tekist hafi að virkja nemendur til að vanda upplestur sinn um veturinn.

Á myndinni má sjá nemendur 7. bekkjar með viðurkenningarskjölin sín.