Stuðlað að hugarró og velferð nemenda og starfsfólks

Ritstjórn Fréttir

Á skólaárinu sem nú fer í hönd verður markvisst unnið að aukinni velferð og vellíðan nemenda og starfsfólks. Margir kennarar hafa verið að prófa sig áfram með slökunar-, núvitundar- og hugleiðslustundir með nemendum undanfarin misseri og hefur það gefist vel. Því var ákveðið að taka málefnið skrefi lengra og mun Elín Matthildur Kristinsdóttir halda utan um það verkefni. Elín Matthildur er nýkomin úr námsleyfi sem hún nýtti í að vinna meistaraverkefni um það hvernig flétta megi inn í hefðbundið grunnskólastarf verkefni og vellíðunarstundir til að stuðla að sjálfstyrkingu, aukinni þrautseigju og bættu hugarfari. Kynningarfundur um þessa nýbreytni í skólastarfinu verður haldinn í upphafi skólaárs og er vonast eftir góðri þátttöku foreldra og forráðamanna.