Þemadagur

Ritstjórn Fréttir

Á síðastliðnu skólaári voru reglulega haldnir þemadagar á unglingastigi. Nemendur og starfsmenn voru almennt ánægðir með framkvæmd og afrakstur þeirra. Fyrsti þemadagur þessa skólaárs var haldinn þriðjudaginn 30. október sl. og gekk hann vel í alla staði. Nemendum unglingadeildar var skipt í 14 hópa og í hverjum hópi voru að meðaltali fimm nemendur. Viðfangsefnið að þessu sinni var ljósmyndamaraþon þar sem hver hópur fékk tíu hugtök sem hann átti að ljósmynda og rökstyðja með hvaða hætti ljósmyndirnar vörpuðu ljósi á viðkomandi hugtök. Nemendur settu ljósmyndirnar á veggspjöld og bjuggu til glærukynningar auk kynningar á myndum og hugtökum sem fluttar voru fyrir allan hópinn í lokin. Markmiðið með þessari vinnu var fyrst og fremst  að fá nemendur til þess að vinna saman í hópum, láta ímyndunaraflið njóta sín, vera skapandi, beita gagnrýnni hugsun og tjá hugsanir sínar og hugmyndir á skýran og viðeigandi hátt.