Tími til að lesa – stefnum að heimsmeti!

Ritstjórn Fréttir

Í dag hefst, á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, lestrarverkefni fyrir börn og fullorðna. Allir eru hvattir til að nýta til lesturs þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður.

Barna- og ungmennabókahöfundurinn Gunnar Helgason er sérstakur talsmaður verkefnisins sem kallast Tími til að lesa. Heitið vísar í aðstæðurnar sem við búum við um þessar mundir, þar sem margir hafa meiri tíma til að lesa en áður og þörfin fyrir góða afþreyingu er mikil.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að árangur sé mældur í tíma og eru Íslendingar hvattir til að skrá allan lestur sinn á vefsíðunni timitiladlesa.is „Þar geta þátttakendur líka fylgst með sameiginlegum lestri þjóðarinnar frá degi til dags. Á næstu fjórum vikum munu þar safnast upp ýmsar upplýsingar um lestur, hugmyndir að lesefni fyrir ólíka aldurshópa, hvatningarmyndbönd frá rithöfundum og öðrum sem segja okkur hvað og hvar þeim finnst gaman að lesa.“

Verkefnið mun standa til 30. apríl og að því loknu verður þess freistað að fá afraksturinn skráðan í heimsmetabók Guinness. Um fyrsta heimsmet sinnar tegundar yrði þá að ræða

Verkefninu er meðal annars ætlað að virkja keppnisskap þjóðarinnar. Merki verkefnisins minnir á merki íþróttafélaga og keppnistreyjur verða afhentar heppnum þátttakendum í lok verkefnisins. Leitað verður samstarfs víða til að virkja sem flesta.

Tökum öll þátt í þessu skemmtilega og góða og verkefni og skráum okkur strax á timitiladlesa.is

Dreifum huganum með lestri góðra bóka og stefnum að því sem þjóð að setja heimsmet í lestri!