Tökum til hendinni – tiltektardagur grunnskólans

Ritstjórn Fréttir

Miðvikudaginn 6. maí verður árlegur tiltektardagur grunnskólans haldinn undir yfirskriftinni Tökum til hendinni.

Þá munu nemendur og kennarar ganga um nágrenni skólans og tína rusl. 1. og 2. bekkur fara yfir Kveldúlfsvöll og Löggufjöruna; 3. og 4. bekkur taka Englendingavík, Vesturtanga og göngustíginn niður á fótboltavöll; 5. bekkur hreinsar við íþróttahús, í Skallagrímsgarði og á skólalóð; 6. bekkur fer yfir Þorsteinsgötu og Kjartansgötu frá íþróttahúsi niður á Kjartansgötuvöll; 7. bekkur hreinsar Borgarbraut og Brákarbraut frá brúnni út í Brákarey að leikskólanum Klettaborg; 8. bekkur hreinsar göngustíg meðfram Kjartansgötu og Kveldúlfsgötu að Klettaborg og loks taka 9. og 10. bekkir til hendinni við íþróttavöll, í klettunum neðan skólans og á Bjössaróló.

Tiltektardagur grunnskólans hefur verið haldinn um árabil og nýtur framtakið vitaskuld mikillar ánægju meðal bæjarbúa.