Hrafnhildur Tryggvadóttir, umhverfisfulltrúi Borgarbyggðar, kom í heimsókn í skólann í dag og spjallaði við nemendur um umhverfis- og sorphirðumál. Nemendur hlustuðu af athygli og ýmislegt vakti undrun þeirra eins og til dæmis að allt það sem fer í ruslið hjá okkur höfum við greitt fyrir með einhverjum hætti og að jafnvel gamlir götóttir sokkar eru endurnýttir séu þeir flokkaðir og þeim skilað á réttan stað. Merkilegt þótti hvílík ósköp af orku og góðmálmum þarf til að framleiða einn farsíma sem er svo kannski búið að henda eftir árs notkun. Yngstu nemendurnir virtust sammála um að skynsamlegra væri að gefa gamalt dót á Nytjamarkaðinn heldur en að setja það upp á háaloft þar sem það kæmi engum að notum. Hrafnhildur skýrði mismunandi hlutverk sorptunnanna þriggja sem eru á hverju heimili og sagði frá moltugerð en lífræni úrgangurinn sem fer í nýju, brúnu tunnuna er einmitt allur notaður í moltu sem svo nýtist sem áburður. Nemendur eru greinilega vel að sér um gildi þess um að huga vel að umhverfinu og spurðu margra áhugaverðra spurninga sem Hrafnhildur svaraði greiðlega.