Undankeppni í Skólahreysti verður haldin fimmtudaginn 21. mars á Ásvöllum í Hafnarfirði. Þar etja kappi lið frá Vesturlandi og Vestfjörðum auk Húnaþings vestra. Keppnin hefst kl. 13:00 og lýkur um kl. 15:00.
Lið Borgnesinga skipa þau Hilmar Elís Hilmarsson og Þórunn Sara Arnarsdóttir úr 10. bekk og Elinóra Ýr Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Ingi Ríkharðsson úr 9. bekk. Varamenn eru Eydís Alma Kristjánsdóttir og Steinar Örn Finnbogason. Þjálfari liðsins er Jóhannes Magnússon og hefur undirbúningur fyrir keppnina staðið frá því í haust.
Vert er að geta þess að Skólahreysti snýst ekki um að sigra eða vera bestur heldur fyrst og fremst að þroska andlegt og líkamlegt atgervi samhliða því að efla félagsleg samskipti kennara, nemenda og foreldra. Persónulegu sigrarnir og samvinnan skipta mestu máli.
Litur Borgnesinga að þessu sinni er grænn og hefur nemendafélag skólans fest kaup á grænum, áletruðum bolum sem stuðningsmenn geta fengið að láni.
Keppendur leggja af stað frá skólanum um klukkan 10:00 en stuðningsmenn leggja af stað klukkan 10:30. Nemendur í 7. – 10. bekk skipa stuðningsliðið en boðið verður upp á kennslu fyrir þá nemendur sem kjósa að vera heima.
Gert er ráð fyrir að komi verði aftur í Borgarnes um kl 16:30. Þá verður haldið rakleiðis í mjólkursamlagið þar sem boðið verður upp á pítsur. Foreldrar eru beðnir um að sækja börn sín í mjólkursamlagið.
Ferðin kostar 1500 krónur fyrir manninn. Innifalið í því er akstur á keppnisstað og pítsuveisla í mjólkursamlaginu þegar heim er komið. Nemendur eru hvattir til að taka með sér nesti til að borða yfir daginn en einnig verður veitingasala í íþróttahúsinu á meðan á keppni stendur.