Uppeldi til ábyrgðar – námskeið í Boston

Ritstjórn Fréttir

Stór hluti starfsmanna Grunnskólans í Borgarnesi nýtti starfsdagana 23. og 24. nóvember sl. til að sækja námskeið í Boston um Uppeldi til ábyrgðar – uppbyggingu sjálfsaga. Stefnan var innleidd í nokkra skóla á Íslandi árið 2000 en Grunnskólinn í Borgarnesi fór í innleiðingarferli árið 2004. Nú starfa um 110 leik- og grunnskólar í anda stefnunnar hér á landi.
Starfsmenn hafa áður farið á nokkur námskeið tengd stefnunni en það er nauðsynlegt að halda kunnáttu og þekkingu við og alltaf bætist eitthvað nýtt við. Þátttakendur á námskeiðinu voru um 120 frá 20 stofnunum víðs vegar af landinu. Fyrirlesarar voru þær Diane Gossen, sem er upphafsmaður stefnunnar og samstarfskona hennar Judy Anderson. Þær hafa báðar komið til Íslands nokkrum sinnum og haldið námskeið fyrir Íslendinga erlendis.
Áhersla var lögð á að fara vel í hugmyndafræðina og auka færni þátttakenda í að nýta ákveðnar vinnuaðferðir í daglegu starfi með börnum. Meginatriði Uppeldis til ábyrgðar er að kenna börnum og unglingum sjálfsaga að efla sjálfstraust. Lögð er áhersla á jákvæð samskipti, gagnkvæma virðingu og góðan skólabrag. Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Markmiðið er að styrkja einstaklinginn í að vera sá sem hann vill vera með hliðsjón af eigin sannfæringu frekar en að stjórnast út frá geðþótta annarra.