Nýlokið er úttekt sérfræðinga á vinnu að hinu svokallaða grænfánaverkefni í Grunnskólanum. Skólar á grænni grein, grænfánaverkefnið er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Markmið verkefnisins er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla.
Skólar á grænni grein fylgja sjö skrefum grænfánans. Að jafnaði tekur sú vinna tvö ár. Þegar skóli hefur stigið skrefin sjö og náð markmiðum sínum má sækja um fá afhentan grænfána, sem er viðurkenning á því að skólinn sé að vinna að menntun til sjálfbærni. Skrefin sjö eru: Umhverfisnefnd; mat á stöðu umhverfismála, áætlun um aðgerðir og markmið, eftirlit og endurmat; námsefnisgerð og tenging við aðalnámskrá; að upplýsa og fá aðra með og loks gerð umhverfissáttmála. Þegar fáninn blaktir við hún eru skrefin stigin að nýju. Ný umhverfisnefnd er kosin sem setur sér ný markmið og skrefin sjö eru endurtekin.
Umhverfisnefnd Grunnskólans í Borgarnesi hefur síðastliðin tvö ár lagt sérstaka áherslu á að takmarka sorp og flokka betur; að nýta pappírinn betur; að fara vel með allar eigur skólans; að koma óskilamunum í réttar hendur og að auka almenna fræðslu í skólanum um stöðu umhverfismála. Það var álit úttektaraðila frá Grænfánaverkefni Landverndar að skólanum hefði gengið vel að uppfylla þau markmið sem hann setti sér. Í umsögn Sigurlaugar Arnardóttur segir meðal annars: „Grunnskólinn í Borgarnesi náði að uppfylla 5 af 5 markmiðum sem sett voru. Vinna við skrefin sjö gekk mjög vel. Það var gaman að koma til ykkar og spjalla við nemendur, flott hvað það eru margir virkir í skólanum. Grunnskólinn í Borgarnesi vinnur á faglegan hátt að menntun til sjálfbærni. Áhersla er lögð á þátttöku nemenda og lýðræðisleg vinnubrögð. Hugmyndir að markmiðum koma frá nemendum. Starfsfólk í grænfánanefnd, verkefnastjóri og nemendur eru áhugasöm og höfðu frá ýmsu að segja í heimsókninni. Ég vil hrósa skýrslunni, hún var skýr og vel unnin. Mikill mannauður er í Grunnskólanum í Borgarnesi og hvetjum við ykkur til áframhaldandi góðra verka. Þið hafið náð þeim góða árangri að fá grænfánann afhentan í áttunda sinn. Innilega til hamingju með það!“
Grænfáninn verður því dreginn að húni við grunnskólann þann 1. september næstkomandi.