Velferðarkennsla í GB vekur athygli

Ritstjórn Fréttir

Föstudaginn 31. ágúst var ráðstefna á vegum Landlæknisembættisins sem kallaðist „Jákvæð menntun í heilsueflandi skólastarfi –vellíðan fyrir alla“. Var ráðstefnan vel sótt og aðalfyrirlesarar voru Dr. Mette Marie Ledertoug, Dr. Hans Henrik Knoop við Háskólann í Árósum og Maggie Fallon við Education Scotland í Skotlandi. Ein vinnustofanna eftir hádegið fjallaði um velferðarkennsluna við Grunnskólann í Borgarnesi, eða búbbluna eins og velferðarstofan kallast í daglegu tali. Elín Matthildur Kristinsdóttir, velferðarkennari skólans, fór yfir hvernig unnið er á fjölbreyttan hátt að aukinni velferð nemenda og hvernig til tókst á síðasta skólaári. Vakti fyrirkomulagið athygli og margir sem nefndu að þeir hefðu hug á því að koma á fót svipuðu fyrirkomulagi í sínum skólum. Við erum að vonum stolt og ánægð með þá jákvæðu athygli sem þetta verkefni fær og höldum ótrauð áfram okkar striki í því að stuðla að aukinni vellíðan, hugarró og velferð, allra í Grunnskólanum í Borgarnesi, bæði nemenda og starfsfólks.