Verkefnið 3 dagar – kynning í skólanum

Ritstjórn Fréttir

Karl Lúðvíksson heimsótti skólann okkar í dag og kynnti verkefnið 3 dagar. Rauði krossinn á Íslandi, Almannavarnir og Heimili og skóli standa að verkefninu sem stuðlar að því að efla viðnámsþrótt Íslendinga gagnvart rofi á innviðum vegna óveðurs og/eða náttúruhamfara.
Fulltrúar frá Rauða krossinum fara nú í grunnskóla landsins og kynna verkefnið fyrir nemendum 5. – 7. bekkja. Fræðslan er sett upp á myndrænan og skemmtilegan hátt og börnin fá minnispunkta til að taka með sér heim varðandi hluti og gögn sem eiga heima í viðlagakassa hvers heimilis.
Með heitinu 3 dagar er lögð áhersla á að einstaklingar og fjölskyldur geti verið sjálfum sér nóg í 3 daga eigi sér stað rof á innviðum. Það getur skipt sköpum að vera vel undirbúinn ef neyðarástand skapast eða ef t.d. net- og símasamband dettur út eða vegir verða ófærir. Góður undirbúningur á heimilum minnkar jafnframt álag á viðbragðsaðila á borð við björgunarsveitir. Mörg dæmi eru um að fjölskyldur hafi verið án rafmagns og rennandi vatns í fleiri daga og því er mikilvægt að vera með viðlagakassa á vísum stað og heimilisáætlun til staðar.