Vetrarstarfi umhverfisnefndar lauk með umhverfisdögum

Ritstjórn Fréttir

Umhverfisnefnd er skipuð fjórum starfsmönnum skólans, einum fulltrúa foreldra og einum fulltrúa nemenda úr hverjum árgangi. Umhverfisnefnd fundar reglulega og setur sér markmið til að vinna að.

Helstu markmið umhverfisnefndar á skólaárinu 2018 – 2019 voru eftirfarandi: Að takmarka sorp og flokka betur; að nýta pappír vel og draga úr pappírsnotkun; að fara vel með allar eigur skólans; að koma óskilamunum í réttar hendur og loks að leggja áherslu á ýmiss konar fræðslu um umhverfismál.

Dagana 8. – 10. maí var skólastarfið helgað umhverfinu með ýmsum hætti. Meðal viðfangsefna voru útivist og útikennsla, fræðsla og tenging við Grænfánaverkefnið. Fulltrúar frá Landvernd komu í skólann og fluttu fyrirlestur um vandamál sem við blasa vegna mikils úrgangs og leiðir til úrbóta. Haldinn var svokallaður óskilamunadagur og í lok hans höfðu tæp 11 kíló af fatnaði og öðrum óskilamunum ratað í hendur réttra eigenda.

Nemendur hreinsuðu rusl í nágrenni skólans og fegruðu umhverfið á marga vegu. Nemendur á unglingastigi tóku til dæmis að sér að mála og lagfæra leiktæki á Bjössaróló í samstarfi við Borgarbyggð.

Grunnskólinn í Borgarnesi hefur tekið þátt í Grænfánaverkefninu frá upphafi þess og stefnir á það áfram. Grænfánaverkefnið stuðlar að aukinni umhverfisvitund, jákvæðum áhrifum í umhverfismálum á nærsamfélagið, lífsvenjum í anda sjálfbærni, lýðræðislegum vinnubrögðum og styrkir umhverfisstefnu skólans.

Með fréttinni fylgja nokkrar myndir frá umhverfisdögunum.

Guðrún Rebekka segir fyrstu bekkingum fyrir verkum
Fjörur voru gengnar og ruslið tínt
Hreinsunarfólk að störfum
Við göngustíga fannst mikið rusl
Á Bjössaróló
Leiktækin á Bjössaróló fengu andlitslyftingu