Þriðji bekkur hefur að undanförnu lært um trúarbrögð, mismunandi siði og venjur í heiminum og um landakort. Nemendur bjuggu til sjálfsmyndir úr dúkkulísum og sendu út í heim. Foreldrar hjálpuðu til við að finna heimilisföng hjá vinum og kunningjum erlendis, nemendur skrifuðu bréf og báðu fyrir dúkkulísurnar í tvo daga og um að það yrði skrifuð dagbók á meðan á dvöl þeirra stæði. Í mars fóru nemendur á pósthúsið og hver og einn sendi sína dúkkulísu af stað í ferðalag. Flestar þeirra fóru til Norðurlandanna og Bretlandseyja, ein til Ungverjalands, ein til Tenerife, ein til Hollands og tvær til Bandaríkjanna. Á meðan beðið var eftir ferðalöngunum útbjuggu nemendur heimskort í stofunni sinni og lituðu löndin sem dúkkulísurnar heimsóttu, teiknuðu fána landanna og fundu út tímamismun. Nokkrum dögum fyrir páska fóru dúkkulísurnar svo að skila sér aftur í skólann, reynslunni ríkari eftir ferðalagið. Mikil gleði og tilhlökkun ríkti þegar umslögin voru opnuð dagbækurnar og myndirnar sem fylgdu með komu í ljós. Verkefninu lauk með því að foreldrum var boðið á kynningu þar sem þeir gátu skoðað ferðalangana og fleira og hlustað á upplestur úr dagbókunum.
Umsjónarkennarar þriðja bekkjar Sæbjörg Kristmannsdóttir og Anna Sigríður Guðbrandsdóttir stýrðu þessu skemmtilega verkefni.

