Vinabekkir planta birki

Ritstjórn Fréttir

Í morgun var gróðursett öðru sinni í framtíðarskógræktarsvæði grunnskólans í nágrenni Borgarness, rétt vestan við flugvöllinn.  Fyrsta gróðursetning þar var 10. september 2020. Gróðursetningin er vinabekkjaverkefni 4. og 9. bekkja.  Þarna mun vaxa og dafna nýr Yrkjuskógur Grunnskóla Borgarness en áður hefur skólinn gróðursett í landi Borgar. Ríflega 200 birkiplöntur voru gróðursettar að þessu sinni.

Grunnskólinn í Borgarnesi gerði árið 1997 samkomulag við staðarhaldara á Borg um að skólinn fengi til umráða svæði til gróðursetningar. Allt til ársins 2015 fóru nemendur í fyrsta, fimmta og tíunda bekk á hverju vori í gróðursetningarleiðangur.  Fullplantað er í svæðið sem skólinn hafði á Borg og því hefur nýtt svæði til gróðursetningar verið tekið í notkun.