Vinna við jólaútvarpið er hafin

Ritstjórn Fréttir

Nemendur keppast nú við að undirbúa jólaútvarpið, FM Óðal 101.3, en það á sér nær 30 ára sögu og er eitt stærsta verkefni Nemendafélags grunnskólans. Útsendingar jólaútvarpsins verða dagana 9. – 13. desember. Efni yngri bekkja verður hljóðritað í Óðali dagana 25. – 29. nóvember en þættir undir stjórn nemenda á unglingastigi eru að mestu sendir út í beinni útsendingu.  Stjórn Nemendafélagsins sér um tæknimál, söfnun auglýsinga og fleira er lýtur að útvarpinu. Nemendur og bekkir semja og undirbúa útvarpsþætti á skólatíma undir stjórn kennara. Leiknar auglýsingar hafa ávallt sett mikinn svip á jólaútvarpið og upptökur á þeim hefjast nú í vikunni. Fjármunir sem safnast vegna auglýsinga renna í sjóð nemenda sem meðal annars er nýttur til að styrkja ferðir sem farið er í á skólaárinu.