Water around us – Þriggja ára verkefni að ljúka

Ritstjórn Fréttir

Dagana 20. – 24. mars næstkomandi munu kennarar frá 6 skólum í 5 Evrópulöndum heimsækja Borgarnes. Hópurinn telur 35 manns; 19 nemendur og 17 kennara frá Þýskalandi, Spáni, Portugal, Lettlandi og Finnlandi. Nemendurnir munu gista á heimilum 10. bekkinga grunnskólans en kennararnir gista á Hótel Borgarnesi. Eitt og annað sem tengist vatni og vatnsorku verður skoðað. Hópurinn fer inn í Langjökul, skoðar Deildartunguhver og Hraunfossa, Þingvelli, Gullfoss og Geysi, Ljósafossstöðina og Friðheima svo eitthvað sé nefnt. Einnig verður farið á landnáms- og Egilssýningar í Landnámssetri. Miðvikudagurinn 22. mars er tileinkaður vatni (international water day) og munu hóparnir vinna ýmis verkefni um vatn í skólanum þann dag. Á föstudaginn verður haldið til Reykjavíkur og í Bláa lónið. Gestirnir halda síðan til síns heima á laugardag.
Verkefnið hefur staðið yfir síðan haustið 2014 og því lýkur í maí í vor. Á þessum þremur árum hafa verið nemendafundir í öllum þátttökulöndum þar sem nemendur úr Grunnskólanum í Borgarnesi hafa kynnst og unnið með jafnöldrum sínum frá þessum löndum. Þátttaka í verkefni af þessu tagi er bæði skemmtileg og lærdómsrík; hún gefur ýmis tækifæri, eykur víðsýni og dregur úr fordómum.