UT-ráðstefna

Ritstjórn Fréttir

Á morgun, miðvikudag, verður haldin örráðstefna um UT í skólanum. Þessa ráðstefnu sækja kennarar grunnskólanna í Borgarbyggð. Vegna þessa verður kennslu hætt hjá yngsta stigi kl. 12:05, hjá miðstigi kl. 12:35 og hjá unglingastigi kl. 12:50. Skólaskjólið verður opið frá kl. 12.

Nemendur skrifa skólafréttir !!!

Ritstjórn Fréttir

Í gangi er skemmtileg nýjung í 4. bekk. Nemendur skrifa fréttir út á skólavefinn okkar um það sem þeim þykir fréttnæmt í skólastarfinu hverju sinni. Fjórir fréttaritarar eru hverja viku og verða alltaf ferskar fréttir á föstudögum. Sjá fyrstu fréttir.

Kynning á uppbyggingarstefnunni

Ritstjórn Fréttir

Miðvikudaginn 9. apríl er stefnt að því að Magni Hjálmarsson, námsráðgjafi við Foldaskóla verði með kynningu fyrir starfsfólk skólans á uppbyggingarstefnunni. Uppbyggingarstefnan er hugmyndakerfi sem í felst aðferð og stefnumörkun skóla til bættra samskipta. Megin atriðið er að kenna börnum og unglingum sjálfsaga og sjálfsstjórn. Höfundur uppbyggingarstefnunnar er Diane Chelsom Gossen frá Kanada. Sjá nánar: http://www4.rvk.is/midgardur.nsf/pages/uppbygging.html

Námsleyfi næsta skólaár

Ritstjórn Fréttir

Tveir starfsmenn skólans hafa fengið námsleyfi næsta skólaár. Eru það Kristján Gíslason skólastjóri og Þór Jóhannsson kennsluráðgjafi. Kristján ætlar í nám við Viðskiptaháskólann í Bifröst og Þór áætlar að ljúka MS prófi frá KHÍ.

Veikindaforföll

Ritstjórn Fréttir

Töluvert hefur verið um veikindi nemenda það sem af er þessari viku. Í morgun var tilkynnt um rúmlega 20 veika nemendur. Eins eru nokkrir kennarar frá störfum vegna veikinda. Ekki verður hjá því komist að nokkur röskun verði á daglegri rútínu þegar svona stendur á.

Stærðfræðikeppni – úrslit

Ritstjórn Fréttir

Nú liggja úrslit fyrir í stærðfræðikeppninni sem haldin var á Akranesi á dögunum. S.l. laugardag voru úrslitin kunngjörð við athöfn í FVA. þeir nemendur skólans sem bestum árangri náðu að þessu sinni voru tvær stúlkur úr 9. bekk A, þær Edda Bergsveinsdóttir og Sigþrúður Fjeldsteð. Urðu þær í 2. og 3. sæti og fengu peningaverðlaun fyrir. Í 10. bekk varð Nanna Einarsdóttir í 6. sæti. Þessum nemendum eru færðar hamingjuóskir

Lausar stöður fyrir skólaárið 2003-2004

Ritstjórn Fréttir

Við Grunnskólann í Borgarnesi eru lausar stöður grunnskólakennara fyrir næsta skólaár. Meðal kennslugreina eru enska á unglingastigi, heimilisfræði og almenn kennsla á yngsta- og miðstigi. Einnig er laus 60% staða forstöðumanns skólaskjóls (lengd viðvera). Æskilegt er að umsækjandi sé uppeldismenntaður eða hafi mikla reynslu af sambærilegum störfum.

Stig af stigi – Þjálfun til að auka félags- og tilfinningaþroska barna

Ritstjórn Fréttir

Í dag eru 14 starfsmenn á námskeiði að læra um aðferðir við að kenna börnum félagslega hegðun. Ásþór Ragnarsson sálfræðingur og Elmar Þórðarson skólaráðgjafi annast kynninguna. Þessar aðferðir hafa hlotið nafnið Stig af stigi (sjá http://www.cfchildren.org). Markmiðin með Stig af stigi er að börnin læri að: – skilja aðra og láta sér lynda við þá – leysa úr vanda og nota til þess félagslegan skilning – kunna að umgangast reiði

Ráðstefna um þróun upplýsinga- og tæknimennta.

Ritstjórn Fréttir

Fyrir skemmstu veitti Menntamálaráðuneytið grunnskólum Borgarbyggðar styrk til ráðstefnuhalds um upplýsinga- og tæknimennt í skólunum. Ráðstefnan verður haldin þann 26. mars og munu kennarar skólanna alfarið sjá um dagskrána þar sem þeir munu miðla hverjir öðrum af reynslu sinni og skeggræða um möguleg sóknarfæri.Það er afar ánægulegt og þýðingarmikið að bjóða kennurum slík tækifæri til samvinnu milli skóla sveitarfélagsins.

Kynning á nýju námsefni í stærðfræði

Ritstjórn Fréttir

Á fundinum verður farið í hugmyndafræðina að baki námsefnisins, hvernig það er byggt upp og tengsl þess við námsskrána. Í tengslum við það gefst tækifæri til að ræða hlutverk kennarans, skipulag kennslunnar, samvinnu við foreldara o. fl. Þá verður fjallað um námsmat og þær hugmyndir að námsmati sem kynntar eru í kennsluleiðbeiningum. Guðný Helga Gunnarsdóttir og Jónína Vala Kristinsdóttir tveir af höfundum Geisla munu annast kynninguna