Gróðursetning

Grunnskólinn í Borgarnesi gerði árið 1997 samkomulag við staðarhaldara á Borg um að skólinn fengi til umráða svæði til gróðursetningar. Allt til ársins 2015 fóru nemendur í fyrsta, fimmta og tíunda bekk á hverju vori í gróðursetningarleiðangur. Umsjónarmaður verkefnisins var Hilmar Már Arason, kennari og síðar aðstoðarskólastjóri.

Spildan sem gróðursett var í er úr landi prestseturjarðarinnar Borgar á Mýrum. Hún er mitt á milli klettaborgarinnar sem staðurinn dregur nafn sitt af og Klaufarholts og liggur skammt ofan gamalla túna. Landið er að mestu blaut mýri en er þurrt í jöðrum þess. Í þessari mýri hefur á síðustu árum sprottið villtur gulvíðir og birki.

Landið er hluti af heimalandi prestsetursins. Um aldir hefur þetta svæði verið lagt undir ágang búfjár. Síðan 1993 hefur það verið alfriðað. Engin framræsla hefur verið gerð.

Tegundir sem gróðursettar voru á vegum grunnskólans eru einkum birki, greni, fura, lerki, ösp og reynir.

Fullplantað er í svæðið sem skólinn hafði á Borg og er  nú stefnt að því að nýtt svæði til gróðursetningar verði tekið í notkun haustið 2020. Það svæði er í eigu sveitarfélagsins en í næsta nágrenni hins fyrra; vestan við túnin á Kárastöðum.