Útikennsla

Í Grunnskólanum í Borgarnesi er lögð áhersla náttúru og sögu við útikennslu í nánasta umhverfi skólans. Stutt er í fjöruna og lífríki hennar, Skallagrímsgarð þar sem finna má fjölda blómplantna og trjáa og útivistarsvæðið Einkunnir sem er gjöfult af berjum og sveppum og þar er svokölluð Álatjörn. Margvíslega rannsóknarleiðangra má skipuleggja í Einkunnum og við Álatjörn. Hafnarskógur er einstakur þar sem hann hefur lifað af nýtingu milli fjalls og fjöru allt frá landnámi. Skólinn er staðsettur í landnámi Skallagríms en landnámsjörð hans, Borg á Mýrum, er í útjaðri Borgarness og marga þekkta staði úr Egilssögu er að finna innan bæjarmarka Borgarness.

Vettvangsferðir eru ein af leiðum skólans til að tengja námið veruleikanum utan skólastofunnar og færa bóklegt nám nær reynsluheimi nemandans hverju sinni.