Brautskráning nemenda í einni eða fleiri námsgreinum

Nemendur geta útskrifast í einni eða fleiri námsgreinum áður en 10. bekk er lokið. Í framhaldinu geta þeir stundað nám við Menntaskóla Borgarfjarðar samhliða námi sínu. Nemendur geta einnig sótt fjarnám í öðrum menntastofnunum.

Eftirfarandi verklagi skal fylgt eftir við útskrift nemanda í einstakri námsgrein:
• Alla jafna útskrifast nemandi sem hyggur á framhaldsnám úr námsgrein í lok 9. bekkjar eða um áramót í 10. bekk. Nemandi getur lokið öllu námsefni í námsgrein fyrr en þá án þess að útskrifast formlega.

• Nemandi sem hyggur á útskrift í einstakri námsgrein áður en 10 námsári er lokið getur hafið undirbúning útskriftar í 8. eða 9. bekk í samráði við umsjónarkennara/kennara sinn. Til að svo geti orðið þarf nemandi að lágmarki að hafa einkunn upp á A á vitnisburðarblaði sínu og hafa sýnt góða ástundun.

• Nemandi þarf að geta axlað ábyrgð á námi sínu.

• Foreldrar skulu sækja um formlega með umsóknarblaði minnst tveimur mánuðum fyrir útskrift að óskað sé eftir útskrift barnsins í einni eða fleiri námsgreinum.

• Nemanda ber að ljúka öllu námi í viðkomandi grein samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla og uppfylla viðmið 10. bekkjar með hliðsjón af hæfniviðmiðum aðalnámskrár með framúrskarandi árangri.

• Sæki nemandi framhaldsnám í námsgrein sem hann hefur lokið fær hann leyfi í þeim tímum í grunnskólanum til að sækja þá tíma í Menntaskóla Borgarfjarðar. Hitti þannig á að tímar í Menntaskólanum séu á sama tíma og einhver námsgrein í grunnskólanum, þannig hann komist ekki í hana, skal hann taka hana utan skóla eða skipuleggja nám sitt og fjarveru úr öðru námi í samráði við umsjónarkennara. Nemandinn sér sjálfur um að koma sér á milli húsa.