Jafnrétti

Allt starf Grunnskólans í Borgarnesi grundvallast á jafnrétti. Í því felst að allir fá að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína, lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis án tillits til aldurs, búsetu, fötlunar, kyns, kynhneigðar, litarháttar, lífsskoðana, menningar, stéttar, trúarbragða, tungumáls, ætternis eða þjóðernis. Að því skal stefnt að allir taki virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis.

Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum og í því samhengi er mikilvægt að skapa meðvitund um mismunandi félagsstöðu einstaklinga. Við skipulag skólastarfs skal leggja áherslu á skóla án aðgreiningar þar sem allir fái notið hæfileika sinna og fái tækifæri til að rækta hæfileika sína.

Skólastarf Grunnskólans í Borgarnesi grundvallast á jafnrétti þar sem allir nemendur fá jöfn tækifæri til náms og þroska.

Skólinn hefur markað sér stefnu í samskiptum, þar sem allt starf innan skólans grundvallast á einkunnarorðum hans; sjálfstæði, ábyrgð, virðingu og samhug. Þessi stefna birtist í sýn skólans, skólareglum, jafnréttisáætlun, eineltisáætlun og í frammistöðumati skólans.

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru skýr ákvæði um að á öllum skólastigum skuli nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál.

Áhersla er lögð á að kynna nemendum málefni hinna ýmsu þjóðfélagshópa, hvatt er til jákvæðni og umburðarlyndis gagnvart fjölbreytileika mannlífsins og því að ekki eru allir eins.

Við val á námsefni verður haft í huga að jafnrétti verði sýnilegt, í víðum skilningi.

Í öllu skólastarfi þarf að hafa í huga að réttur eins geti ekki takmarkað rétt annars.

Uppfært 08/2016