Sköpun

Sköpun er ferli, þar sem viðfangsefnið er mótað, því er miðlað, eitthvað nýtt eða öðruvísi er búið til. Sköpun getur líka verið hagnýt, hún snýst því ekki aðeins að búa til eitthvað nýtt, heldur einnig að nýta það sem fyrir er. Sköpun snýst um samtal við umhverfi sitt, m.a. að skoða, hlusta, muna og skilja umhverfið betur en áður en farið var af stað.

Sköpun er um að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Sköpun er leikur með efnivið og ólíkar aðferðir, í samvinnu eru einnig mörg tækifæri til sköpunar. „ Sköpun sem grunnþáttur skal stuðla að ígrundun, persónulegu námi og frumkvæði í skólastarfi. Sköpunarkraftur og innsæi eru lykilorð í þessu samhengi.“ (Aðalnámskrá grunnskóla 2011).

Sköpun er órjúfanlegur þáttur í öllu skólastarfi, hún tengist öllum námsgreinum skólans. Kenna þarf öll fög á skapandi hátt og nota til þess fjölbreyttar aðferðir og nemendur þurfa að fá tækifæri til að kynnast ólíku umhverfi og aðstæðum, aðferðum og efniviði. Þar verður að gefa svigrúm til að nýta margs konar leiðir í vinnu og rannsóknum, því einstaklingarnir eru mismunandi og þeir verða að hafa val um að fara ólíkar leiðir. Það er þó ekki verið að tala um algjört frelsi sé skilyrði fyrir sköpun, því öll sköpun byggir líka á ákveðnum þekkingargrunni, samhengi og þjálfun.

Í skólanum fer fram skapandi starf fyrir viðburði eins og árshátíð skólans, jólaútvarpið, jólaskemmtun og vinavikur, þar sem allir nemendur leggja hönd á plóg.

List- og verkgreinar eru kenndar í öllum árgöngum, auk þess sem svokallaðar smiðjur eru á yngsta stigi skólans, þar sem viðfangsefnin eru af ýmsum toga t.d. náttúruskoðun, spil og leikir, handverk, myndverk og fl.

Einnig má sjá skapandi starf t.d. innan uppbyggingarstefnunnar og í umhverfisþema yfir allan skólann, þema sem sum skólaár tengist grænfánanum.

Í skólanum viljum við sjá að

  • leikir séu nýttir meira meðvitað sem námsleiðir.
  • nemendur hafi meira val um leiðir, viðfangsefni, verkefnaskil ( t.d. stuttmyndir, teiknimyndir, tónlist, myndlist) og áhugasviðsverkefni.
  • nemendur hafi meiri áhrif á að skapa umhverfi sitt innan skólans og á skólalóð.
  • markvissari skapandi endurnýtingu tengda umhverfisstefnu.
  • skapandi skrif og tjáningu í öllum greinum.

Uppfært 08/2016