Námsmat og vitnisburður

Megintilgangur námsmats er að örva nemendur, aðstoða þá við námið og hvetja þá til sjálfsmats. Með mati í skólastarfi skal reynt að afla sem öruggastrar og víðtækastrar vitneskju um það hvaða árangri einstaklingar og hópar hafa náð. Meta verður alla þætti námsins, framfarir, þekkingu, skilning og leikni og láta þá vega í samræmi við áherslur í náminu. Mikilvægt er að meta bæði verklega og bóklega þætti og prófa ýmist skriflega, verklega eða munnlega eftir því sem við á.

Námsmat skal miða við þau markmið er fram koma í Aðalnámskrá. Þess er enginn kostur að meta námsgengi og framfarir eingöngu með skriflegum könnunum. Mörg markmið eru þess eðlis að þau verða best metin með öðrum aðferðum, t.d. með athugunum kennara eða mati á verkefnum nemenda.

Áhersla er lögð á mat á allri frammistöðu nemenda. Námsmat skal fara fram jafnaðarlega allan veturinn (símat). Kennarar þurfa að hjálpa nemendum til raunhæfs sjálfsmats, gera þeim grein fyrir markmiðum námsins og hvernig miðar í átt að þeim. Heildarvitnisburði skal skila í viðtali við nemendur og foreldra þeirra þar sem lögð eru fram gögn er sýna stöðu og framfarir nemenda, að auki skal nemendum afhentur skriflegur vitnisburður. Í skriflegum vitnisburði skulu dregnar fram niðurstöður gagna. Slíkum vitnisburði skal skila í tölum og/eða umsögnum. Upplýsingum þessum skal komið fyrir í skráningarkerfi skólans. Kennarar, aðrir en umsjónarkennarar, skili skriflegri umsögn um mat þeirra á hverjum bekk og nemenda til umsjónarkennara þar sem lagt verði mat á frammistöðu nemenda.

Þegar mat er lagt á frammistöðu eða framfarir nemenda með hliðsjón af markmiðum Aðalnámskrár skal fyrst og fremst miðað við þann nemanda sem í hlut á. Þá er lagt mat á framfarir hans, dugnað og árangur miðað við hans eigin hæfileika og getu. Stefnt skal að því að meta árangur skólastarfsins í heild.

Vitnisburð verður að setja fram á skýran og ótvíræðan hátt þannig að nemendur og foreldrar skilji við hvað er átt. Lögð er áhersla á munnlegan vitnisburð auk skriflegs. Þar sem gefnar eru einkunnir í tölum er notast við einkunnaskalann frá einum og upp í tíu. Aðeins er gefið í heilum og hálfum tölum og ekki er reiknað út meðaltal.
Uppgjör námsmats er við annaskipti.

Uppfært 07/2014