Skýr mörk

Uppeldi til ábyrgðar miðar að því að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfstjórn barna og unglinga og þjálfa þau í að ræða um tilfinningar og átta sig á þörfum sínum. Vinnuaðferðunum er einnig ætlað að styðja starfsmenn skóla við að móta sér skýra stefnu varðandi samskipti og agamál. Öðru fremur er um að ræða aðferðir við að kenna sjálfstjórn og sjálfsaga og styrkja einstaklinga í því að læra af mistökum sínum. Hugmyndafræðin hefur áhrif á kennsluhætti, stjórnunarhætti, áherslur í lífsleiknikennslu og ekki síst á meðferð agamála.
Við erum Uppbyggingarskóli og það á að endurspeglast í öllu skólastarfi. Við starfsmenn höfum gert með okkur sáttmála – líkt og við látum nemendur okkar gera. Í honum er að finna það sem okkur finnst mikilvægast. Hann hljómar svona:
Við viljum að í skólanum sé hlýlegt andrúmsloft og að við sýnum hvert öðru umhyggju og kurteisi. Við viljum að samskipti innan vinnustaðarins einkennist af jákvæðni, gleði og metnaði.
Við leggjum sérstaka áherslu á geðrækt og eflingu sjálfsmyndar í starfinu í vetur sem og í fyrravetur. Þar fléttast saman verkefni Uppeldis til ábyrgðar og Heilsueflandi skóla að mörgu leyti og allt fellur þetta vel að markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla.
Bekkjarsáttmáli, þar sem nemendur semja með kennurum sínum er unninn í upphafi skólaárs. Í honum koma fram óskir um aðstæður og andrúmsloft í skólastofunni.
Við viljum að starfsfólk og nemendur:
• finni sig örugga og þeim líði vel í skólanum.
• læri af þeim mistökum sem þeir gera varðandi hegðun og samskipti.
• séu reiðubúnir til þess að líta í eigin barm og nái betri stjórn á eigin hegðun.
• styrkist í því að takast á við mistök sín á uppbyggilegan hátt.

Um hegðun:
Hegðun er annars vegar ásættanleg og eðlileg og hins vegar óásættanleg. Þarna á milli er dregin marklína, Skýr mörk.
Æskileg og eðlileg hegðun:
Allir mæti ávallt stundvíslega og vel undirbúnir í skólann, reiðubúnir til að takast á við verkefni dagsins. Gangi vel um skólann og sýni sjálfum sér og öðrum virðingu með framkomu sinni, orðum og gjörðum.
Óæskileg hegðun:
• Truflun.
• Mæta of seint.
• Illa undirbúin.
• Slæm umgengni.
• Orðbragð.

Ef nemandi sýnir óæskilega hegðun fær hann þrjár áminningar frá kennara: Ef það dugir ekki til þá fer hann út úr bekk eða til stjórnenda þangað til hann er tilbúinn til að fara eftir bekkjarsáttmála.
Skýr mörk – óásættanleg hegðun:
• Viljandi skemmdarverk.
• Gróft andlegt ofbeldi.
• Líkamlegt ofbeldi.
• Vopnaburður.
• Notkun fíkniefna.
Viðurlög:
• Ávallt að vísa til umsjónarkennara/skólastjórnenda.
• Hafa samband við foreldra og þeir beðnir að sækja nemanda.
• Gera uppbyggingaráætlun með foreldrum þegar nemandi kemur aftur.