Skýr mörk

Uppeldi til ábyrgðar miðar að því að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfstjórn barna og unglinga og þjálfa þau í að ræða um tilfinningar og átta sig á þörfum sínum. Vinnuaðferðunum er einnig ætlað að styðja starfsmenn skóla við að móta sér skýra stefnu varðandi samskipti og agamál. Öðru fremur er um að ræða aðferðir við að kenna sjálfstjórn og sjálfsaga og styrkja einstaklinga í því að læra af mistökum sínum. Hugmyndafræðin hefur áhrif á kennsluhætti, stjórnunarhætti, áherslur í lífsleiknikennslu og ekki síst á meðferð agamála.Við erum Uppbyggingarskóli og það á að endurspeglast í öllu skólastarfi.

Við starfsmenn höfum gert með okkur sáttmála – líkt og við látum nemendur okkar gera. Hann hljómar svona: Við viljum að í skólanum sé hlýlegt andrúmsloft og að við sýnum hvert öðru umhyggju og kurteisi. Við viljum að samskipti innan vinnustaðarins einkennist af jákvæðni, gleði og metnaði.

Bekkjarsáttmáli, sem nemendur semja með kennurum sínum, er unninn í upphafi skólaárs. Í honum koma fram óskir um aðstæður og andrúmsloft í skólastofunni.

Við viljum að starfsfólk og nemendur:
• finni sig örugga og þeim líði vel í skólanum.
• læri af þeim mistökum sem þeir gera varðandi hegðun og samskipti.
• séu reiðubúnir til þess að líta í eigin barm og nái betri stjórn á eigin hegðun.
• styrkist í því að takast á við mistök sín á uppbyggilegan hátt.

Um hegðun:
Hegðun er annars vegar ásættanleg og eðlileg og hins vegar óásættanleg. Þarna á milli er dregin marklína, Skýr mörk.

Æskileg og eðlileg hegðun:

Allir mæti ávallt stundvíslega og vel undirbúnir í skólann, reiðubúnir til að takast á við verkefni dagsins. Gangi vel um skólann og sýni sjálfum sér og öðrum virðingu með framkomu sinni, orðum og gjörðum.

Óæskileg hegðun:

Nemendur mæta of seint, valda truflun, eru illa undirbúnir, ganga illa um og nota óviðeigandi orðbragð.

Skýr mörk – óásættanleg hegðun:

Með óásættanlegri hegðun er átt við vísvitandi skemmdarverk, andlegt eða líkamlegt ofbeldi, vopnaburð og notkun ávana- og fíkniefna.

Viðurlög:
• Viðkomandi skal ávallt að vísa til umsjónarkennara/skólastjórnenda.
• Haft er samband við foreldra og nemandi sóttur.
• Þegar nemandi kemur aftur er gerð uppbyggingaráætlun í samráði við foreldra/forráðamenn.

Uppfært 11/2021