Lífsgildi

Markmiðið með umfjöllun um lífsgildi með nemendum er að láta börn og unglinga leiða hugann að því hvaða lífsgildi eru þeim mikilvæg og hjálpa þeim að móta sér skoðanir á því hvað er mikilvægast fyrir þau sjálf en samræmist jafnframt hagsmunum heildarinnar.
Hér hugum við að einstaklingnum í lýðræðissamfélagi og sýnum nemendum að hægt er að ná árangri með því að:
• Tala út frá gildum sem við trúum að séu mikilvæg
• Hlusta af virðingu á skoðanir hvers annars
• Leysa úr þrætum
• Skapa sameiginleg markmið
Við lærum að taka lýðræðislegar ákvarðanir með því að finna jafnvægi milli frelsis einstaklingsins og hags heildarinnar.
Við spyrjum spurninga eins og: Hvaða lífsgildi eru mér mikilvægust?Hvaða lífsgildi eru mikilvægust á heimili mínu? Hvaða lífsgildi eru mikilvægust í skólanum? Hvernig manneskja vil ég vera? Hvernig fer ég að að verða sú manneskja?
Við hugum að því hvernig við komum fram við aðra, að maður tekur ábyrgð á sjálfum sér – hvað maður gerir og hvernig maður stuðlar að eigin velferð og hamingju. Afurð þess að fjalla um lífsgildi eru að jafnaði bekkjarsáttmálar, þar sem nemendur bekkja koma sér saman um gildi sem lögð eru til grundvallar í samskiptum innan hópsins.
Hér má vinna með:
• Y spjald
• T spjald
• Lífsgildabók
• Bekkjarsáttmálagerð
Sjá nánar í bók Judy Anderson, Sáttmálar um lífsgildi, sem þýdd er af Álftaneskóla 2004 og Sáttmálar um samskipti sem einnig er eftir Judy Anderson, þýdd af Magna Hjálmarssyni 2004.