Óskaveröldin

Glasser talar um að við höfum öll innbyggðar í okkur myndir af því sem okkur þykir eftirsóknarvert, það sem við viljum sjá, heyra, finna, bragða, ilma og sjá. Við geymum myndir af því sem okkur þykir eftirsóknarvert í svokallaðri óskaveröld. Þessar myndir eru af fólkinu sem við viljum hafa í kringum okkur, þeim hlutum og upplifunum sem við sækjumst eftir og þeim lífsgildum og skoðunum sem okkur þykja eftirsóknarverð. Þegar við skynjum eitthvað í veruleikanum sem er ekki í óskaveröldinni okkar, þá reynum við ekki að nálgast það. Ef veruleikinn er í samræmi við óskaveröldina, þá erum við ánægð en ef mikið ósamræmi er þar á milli erum við döpur. Við höfum safnað myndum af því sem hefur veitt okkur ánægju og mætt okkar þörfum allt frá barnæsku og geymum með okkur í þessari óskaveröld. Þessar myndir breytast þó í samræmi við aldur, þroska og aðstæður. Glasser líkir þessum myndum við okkar persónulega myndaalbúm, þar sem við geymum einungis myndir af ánægjulegum minningum og því sem skiptir okkur máli. Samkvæmt sjálfstjórnarkenningunni er allt sem við gerum tilraun til að nálgast þessar myndir sem við eigum í óskaveröldinni okkar. Í óskaveröldinni er öllum okkar þörfum fullnægt.