Uppeldi til ábyrgðar

Í Grunnskólanum í Borgarnesi er uppbyggingarstefnan eða uppeldi til ábyrgðar höfð að leiðarljósi í öllu starfi. Um  er að ræða aðferð til stefnumörkunar skóla og að því að efla jákvæð samskipti. Aðferðin byggir á því að ná samstöðu um lífsgildi til að hafa að leiðarljósi og að fylgja þeim síðan eftir með fáum en skýrum reglum.

Uppeldi til ábyrgðar er aðferð við að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga. Það byggir á þeirri meginhugmynd að fólk sé fætt með sjálfstæðan vilja og að áhuginn komi að innan. Áhersla er lögð á að nemandi læri af mistökum sínum og fái tækifæri til að leiðrétta þau. Uppeldi til ábyrgðar beinir athyglinni fyrst að persónunni sem síðan lítur í eigin barm og skoðar hvaða áhrif hegðun hennar hefur á aðra. Markmiðið er að styrkja einstaklinginn í að vera hann sjálfur frekar en að stjórnast af öðrum. Til að hjálpa börnum inn á þessa braut og fá þau til að skoða eigið gildismat er áhersla lögð á spurningar á borð við: Hvernig viljum við vera og hvað þurfum við að gera til að ná takmarki okkar?

Uppbyggingarstefnan eða uppeldi til ábyrgðar er lífsgildismiðuð aðferð. Það merkir að unnið er með lífsgildi sem eiga sér stoð í ákveðnum þörfum sem við öll höfum. Til að vera lífsglöð og hamingjusöm þurfum við reglulega að uppfylla meðfæddar grunnþarfir fyrir að tilheyra og fyrir áhrifavald, frelsi, gleði og öryggi. Hegðun okkar ræðst af því hvaða þörfum við viljum mæta. Stundum veljum við ranga leið og brjótum þá á þörfum annarra. Uppeldi til ábyrgðar hjálpar okkur að finna rétta leið.

Til að kenna uppbyggingu eru notaðar ýmsar aðferðir. Nemandinn lærir að þekkja grunnþarfir sínar og hvernig þær hafa áhrif á líðan hans. Hann lærir um lífsgildi og finnur sín eigin, gerður er bekkjarsáttmáli og starfsmannasáttmáli. Þá læra nemendur að leysa mál undir leiðsögn kennara og um Lífsvagninn þar sem fjallað er um rökhugsun og þýðingu þess að stjórna sér sjálfur en láta ekki aðra um það. Kennarar fá í hendur ýmiss konar verkfæri sem nýtast til að leysa vandamál og koma í veg fyrir þau.

Nemendur læra:

  • Leiðir til að hafa stjórn á eigin hegðun.
  • Að bera ábyrgð á eigin mistökum, leiðrétta þau og bæta fyrir þau.
  • Að verða þeir sjálfir – þær manneskjur sem þeir vilja vera.
  • Aðferðir við lausn ágreiningsmála.
  • Að sinna þörfum sínum af ábyrgð gagnvart sjálfum sér og öðrum.
  • Að bera ábyrgð á eigin námi.
  • Að mynda tengsl við aðra.
  • Að gera bekkjarsáttmála sem tryggir að ekki sé brotið á rétti einstaklinganna og að þeir fái að blómstra hver á sinn hátt.
  • Að  þekkja hlutverk sitt og skilja að aðrir hafa ákveðnum hlutverkum að gegna í starfinu í skólanum. Þeir læra mikilvægi þess að hver ræki sitt hlutverk eins vel og honum er unnt.
  • Að setja sér markmið, gera uppbyggingaráætlanir og stunda sjálfsskoðun.

Upphafsmaður Uppeldis til ábyrgðar er Diane Gossen. Rætur hugmyndafræðinnar liggja víða, bæði í viðurkenndum kenningum um eðli mannlegrar hegðunar og ýmsum rannsóknum á þeim. Þar má fyrst nefna hugmyndir dr. William Glasser um gæðaskólann og sjálfstjórnarkenningu hans. Í öðru lagi má nefna rannsóknir á heilastarfsemi og styðst Gossen þar við hugmyndir Eric Jensen um mælanleg neikvæð áhrif ógnunar á námsgetu. Í þriðja lagi sækir hún rök til Alfie Kohn sem hefur ritað ítarlega um neikvæð áhrif ytri umbunar. Þá er vísað til rannsókna á fornum aðferðum frumbyggja Ameríku við barnauppeldi og enduruppeldi brotamanna. Megináhersla er lögð á hegðun og líðan nemenda. Gossen segir að orsök vanlíðunar og slæmrar hegðunar felist í því að einstaklingurinn nái ekki að uppfylla grunnþarfir sínar á jákvæðan hátt.